Meðan systir mín dvaldi í París dvaldi ég í íbúðinni hennar í Kópavogi. Tók lyftuna á hverjum morgni niður í bílakjallara og keyrði í vinnuna eins og fín frú, þvílíkur lúxus að þurfa ekki að skafa, maður minn. Var orðin svo heimakær að ég greip með mér bók sem mágur minn hafði tekið á bókasafninu þegar ég neyddist til að fara aftur í Samtún. Eins og margir góðir krimmar hefst sagan á líkfundi en þessi bók, sem er frumraun sænsks aristókrata, er enginn einfaldur og harðsoðinn krimmi heldur mikil örlagasaga sem greip mig strax á fyrstu síðu, örlagakrimmasaga með þéttri fléttu og sögulegri innsýn. Ef þú átt tök á að lesa þessa bók, lestu hana þá.Á morgun er síðasti skiladagur, ég neyðist því til að bruna á bókasafn í Kópavogi eftir vinnu. Hvað sem öðru líður þá er ég búin að pakka inn síðustu jólagjöfinni. Enda sofa systkinin vært, Bjössi í rauðum ruggustól ömmu Boggu og Birta ofan í töskunni minni.
Engin ummæli:
Skrifa ummæli