fimmtudagur, 3. janúar 2019

Nýárs fusion.

Var alveg hlandviss um að ræktin yrði yfirfull af einbeittum lýð með nýársheitarmöntrur og hrökkkexmylsnur í báðum munnvikum. Vildi svo skemmtilega til að ég hafði rangt fyrir mér, svo rangt að á tímabili var ég farin að óttast að það yrði enginn tími. Hæfileg blanda af Thai chi, Pilates, Yoga og temmilegt magn af kerlingum. Kamillute í bolla og frúin harla roggin með sjálfa sig fyrir að hafa hlunkast í ræktina á árdögum nýs árs.

Á fyrsta kvöldi ársins sauð myndarlegi maðurinn hrísgrjón, dró fram bút af hamborgarhrygg og hangikjeti, baunablöndu í skál og brúna sósu sem hann hitaði upp. Sjálf kippti ég ekkjunni inn af veröndinni og skenkti í glös enda engin hemja að ætla lengra inn í nýtt ár án þess að væta kverkarnar með kampavíni (og þá meina ég kampavíni).

Merkilegt annars hvað 3ja daga vinnuvika er löng.

Engin ummæli: