þriðjudagur, 8. janúar 2019

Hættu að væla, komdu að kæla

Allir og amma þeirra voru í ræktinni í gær. Ég þar á meðal. Var nokkuð góð með mig og ákvað að skella mér í 75 mínútna jóga í heitum sal. Jógað var fínt, hitinn var skelfilegur. Svo skelfilegur að ég var farin að sprauta vatni framan í mig í þeirri veiku von að kæla mig örlítið niður. Virkaði ekki rassgat. Þegar ég stóð upp af dýnunni og fikraði mig út úr salnum fannst mér eins og það myndi líða yfir mig. Í alvöru. Andlitið á mér var rauðara en rauði bolurinn sem ég var í. Í alvöru. Fór í kalda sturtu á eftir. Í alvöru.

Hélt áfram að vera roggin með mig og mætti aftur í ræktina í kvöld. Enn mikið af fólki en þó ekki sami sardínudósafílingurinn og kvöldinu áður. Fór í Hot Fitness, já, aftur í heita salinn en vissi af fenginni reynslu að hitinn er ekki jafn skelfilegur í þeim tíma. Eða, hann á ekki að vera það en hann var svo skelfilegur að ég var farin að sprauta vatni yfir hausinn á mér í þeirri veiku von að kæla mig niður. Virkaði ekki rassgat. Sem betur fer var þessi tími bara klukkustund og ég slapp við yfirliðstilfinninguna sem hlýtur að vera jákvætt. Eiginmaðurinn vildi endilega lána mér rauðan bol af sér eftir að hafa heyrt lýsingarnar kvöldinu áður, hann er úr svo léttu efni sagði hann. Virkaði ekki rassgat. Andlitið á mér var rauðara en bolurinn. Í alvöru. Fór í kalda sturtu á eftir. Í alvöru.

Ætla ekki í ræktina annað kvöld. Köld sturta tvö kvöld í röð er alveg nóg fyrir mig. Í alvöru.

Engin ummæli: