mánudagur, 8. október 2018

Pulsa eða pylsa?

Renndum í bæinn rétt undir kvöldmat í gærkvöld. Eiginmaðurinn þráði að komast undir sturtuna og í náttföt svo ég fór í búð. Eljan til að elda var ekki mikil svo pylsuréttur Hallveigar systur varð fyrir kvöldmatarvalinu. Allir og amma hans voru að versla en ég hélt þreyttum fókus á innihaldi pylsuréttar Hallveigar systur. Mundi líka eftir því að kaupa mjólk og brauð.

Karlinn var svo ansi frískur eftir sturtuna að hann bauðst til að elda. Skar niður beikon og lauk og hvítlauk (sem er reyndar ekki í hefðbundnum pylsurétti Hallveigar systur) og sveppi. Stakk mjólkinni inní ísskáp, setti brauðið í skúffuna og opnaði dós af bökuðum baunum. Í miðri steikingu snýr hann sér að eiginkonunni, sem var rétt að komast í náttfötin, og spyr hvar eru pylsurnar?

Rauk í larfa og brunaði aftur í búðina. Það eru jú víst pylsur í pylsurétti Hallveigar systur, ekki hægt að neita því.

Engin ummæli: