mánudagur, 18. júní 2018

Áratugur flýgur hjá

Ég kynntist þeim myndarlega fyrsta laugardag janúarmánaðar 2008. Rúmum mánuði síðar stóð hann frammi fyrir því að kaupa afmælisgjöf fyrir þessa nýtilkomnu hjásvæfu sína. Verkið leysti hann snöfurmannlega af hendi eins og hans er von og vísa og kannski segi ég ykkur betur frá því síðar. 

Fjórum mánuðum síðar var komið að mér. Ég gaf þeim myndarlega matreiðslubók sem var í miklu uppáhaldi hjá mér og ber það skemmtilega heiti Cooking with booze ásamt hressu korti af áttræðri kellu í spíkat (kommon, ég var nú bara 32 ára meðan hann skreið óðfluga á fimmtugsaldur!). Að auki gerði ég dauðaleit að Líbönsku rauðvíni til að skenkja með Líbanska réttinum sem ég eldaði fyrir hann afmælisdaginn þann.

Til að gera langa sögu stutta þá eru tíu ár liðin síðan þá. Í kvöld dembdi ég jarðarberjum og hindberjum í skál og skenkti þeim myndarlega kampavín í tilefni dagsins. Klippti og garnhreinsaði humar. Bræddi saman smjör, hvítlauk og steinselju í potti. Makaði yfir galopinn humarinn og stakk honum því næst undir grillið í 5 mínútur. 

Sá myndarlegi skríður óðfluga yfir á sex-tugsaldurinn. Hann hefur aldrei eldað eina einustu uppskrift uppúr Cooking with booze.

Engin ummæli: