sunnudagur, 11. febrúar 2018

Bókabuska

Sit við borðstofuborðið. Var að taka eyrnalokkana úr mér. Þeir liggja núna við hliðina á hringnum sem ég var með áður en ég reif hann af mér. Eiginmaðurinn liggur á sófanum langt sokkinn í nýjasta Eddumálið hennar Jónínu. Hann gaf sér þó tíma blessaður til að flysja og skera kartöflur sem nú lúra í ofninum. Eldamennskan er á hans höndum í kvöld. Milli þess sem hann liggur á sófanum.

Sjálf er ég með nefið ofan í tveimur bókum, var að fá lánaðar 3 bækur og get ekki beðið eftir að komast í nýjasta Eddumálið hennar Jónínu. Sit sem fyrr segir við borðstofuborðið. Hlusta á allskonar góða músík eins og t.d. þessa (þið verðið að smella á þessa ef þið viljið fá hlustunardæmi). Ætti að vera að gera heimadæmin fyrir frönsku annað kvöld en, æ, ég nenni því ekki. Sötra þess í stað hvítvín úr vel kældri flösku sem lúrir í snjóbing á veröndinni. Rembist við að blogga eins og síðasti Móhíkaninn og nei, með því er ég ekki að segja að síðasti Móhíkaninn hafi bloggað heldur er ég að segja að mér líður eins og... æ, gleymið því, það les hvort eð er enginn blogg lengur. Að minnsta kosti ekki svona sjálfhverfublogg. Einu sinni voru þau stunduð af kappi en í dag er það sjálftakan sem tekið hefur yfir, eða selfies þið vitið. Sjálf hef ég aldrei komist almennilega uppá lagið með þessa sjálftöku, er miklu betri í að blogga, eða hvað veit ég, aldrei hefur neinn sagt mér að ég sé betri í að blogga heldur en að taka sjálfu. Sannast sagna hefur ekki nokkur sála sagt að ég sé góð að blogga, nema kannski eiginmaðurinn, en fjandakornið, af hverju ætti ég að hlusta á hann, ekki eins og hann sé óhlutdrægur.

Jæja, annars gleymdi karlinn sér alveg yfir Eddu (allt Jónínu að kenna) og kartöflurnar hálfbrunnu yfir en hér er annað tóndæmi í boði frúarinnar (jájá, þið verðið bara að þrýsta á hér til að fá næsta hlustunardæmi, mæli samt alveg með því það er svo ljúft)

Á meðan drjúgur meirihluti fésbúkara er að reyna að sjá sig sjálft í öðru kyni þá vildi ég vita hvaða Disney persóna ég væri. Kemur kannski á óvart, og kannski ekki, þá var ég dæmd Öskubuska. Í gær fór ég í góðan göngutúr í kuldanum og labbaði fram á þennan skó
ekki veit ég með prinsinn hennar þessarar Öskubusku en ef þið rekist á hana eruð þið þá til í að segja henni að hann er ekki að leita að henni og að hælaskórinn hennar er á Kirkjuteigi?

2 ummæli:

ella sagði...

Hef ekki hugmynd um hvernig þér ferst sjálftakan en mér finnst þér takast prýðilega í bloggun. Ég les alltaf en það kannski kemur að hluta til af því að pósturinn lætur mig vita þegar þú birtir. Nú hefur lítið upp á sig að taka gamla bloggrúntinn.

Frú Sigurbjörg sagði...

TAKK Ella, fyrir hrósið, fyrir að lesa og ekki síst fyrir að skrifa athugasemd við og við :)