miðvikudagur, 12. júlí 2017

Hlauptu stúlka, hlauptu

Við myndarlegi hlupum niður tröppurnar. Við náum henni kallaði hann á hlaupunum svo ég gaf í, hljóp hraðar en hann. Kom að lestinni og skutlaði töskunni inn. Nema hvað, sem ég skutlaði töskunni inn og ætlaði á eftir henni þá lokuðust dyrnar. Neðanjarðarlestardyrnar lokuðust á handföngin á töskunni minni. Ég stóð á lestarpallinum með handföngin í höndunum og æpti; taskan mín, taskan mín!  Í lestinni sá ég stúlku, yngri en ég, sem tók á móti töskunni minni og æpti á strákinn við hliðina á sér að ýta, og saman ýttu þau töskunni minni (sem inniheldur þið vitið símann minn, veskið mitt, snýtubréfin mín, sólgleraugun og allt það) út um rifu á lestarhurðinni, sem þau þröngvuðu upp, meðan ég stóð á pallinum með handföngin ein í höndunum.

Sá myndarlegi segist hafa sagt mér að stoppa en ég heyrði hann bara segja mér að hlaupa. Altjént var ég með ónotuð hliðarbönd í töskunni sem ég smellti á hana og henti henni svo á öxlina á mér í kjölfarið. Þakklát stúlkunni í lestinni sem hlýtur að hafa lent í svipuðu og ég miðað við snör viðbrögð hennar. 

Við myndarlegi vorum annars að koma úr siglingu á Signu. Kvöldsiglingu þar sem við drukkum kampavín, átum ostabitnip, foi gras, krabbakjöt, drukkum hvítvín, rauðvín frá Bordeaux, átum kálfakjöt og andabringu, himneska osta, apríkósutertu og makkarónu. Lífið í París er gott.

Engin ummæli: