fimmtudagur, 27. júlí 2017

Frá sólarlausri Bordeaux

Heyrði köttinn góla hérna fyrir utan og dreif mig útá verönd að athuga með hana. Þar sem ég beygði mig yfir hana og strauk mjúkan feldinn varð mér skyndilega hugsað til Elle. Andskotann þarftu alltaf að láta svona kona sagði ég við sjálfa mig í huganum. Dreif mig samt inn. Kötturinn kom á eftir mér en ég lét það alveg vera að loka verandarhurðinni. Er nefninlega ein heima í augnablikinu, eða þ.e.a.s. ég, Licia (kötturinn) og of auðugt ímyndunarafl mitt eru heima. 

Rétt áðan hringdi ég í monsjör Pinto og pantaði leigubíl fyrir morgundaginn. Talaði ekkert nema frönsku í símann. Ófull í ofanálag. Hvort herra Pinto mætir kl. tíu í fyrramálið verður bara að koma í ljós, þeim myndarlega fannst allavega ástæða til að leita uppi hraðbanka og hafa upphæðina (sem ég held að ég hafi skilið rétt) klára ef ske kynni að herra Pinto verði ekki með posa meðferðis. Þess vegna er frúin ein heima með ímyndunaraflið á snúningi.

Annars er karlinn búinn að vera óvenju lengi í burtu, mætti alveg fara að koma til baka. Það þarf jú að fara að opna kampavínsflöskuna sem lúrir ísköld í ísskápnum.

Engin ummæli: