laugardagur, 23. apríl 2011

Búðasaga

Fyrir slatta af árum vann ég á kassa í Hagkaup ásamt því að stunda nám í fjölbrautaskóla. Eitt sinn afgreiddi ég miðaldra hjón sem ég mun líklega aldrei gleyma. Ég var búin að taka eftir því að konan var að borða af vínberjum sem hún var með í poka í innkaupakörfunni. Þetta var á þeim tíma sem fólk þurfti sjálft að vigta inni í grænmæti og líma verðmiðann á pokann. Konan setti pokann með vínberjunum síðast upp á kassann hjá mér, og lítið orðið eftir nema stöngullinn með tveimur, þremur berjum á. Þegar ég ætlaði að fara að skanna nánast tómann pokann kom í ljós að enginn verðmiði var á honum. Ég lét því út úr mér e-ð á þá leið að: það virðist sem það hafi gleymst að vigta vínberin... Konan, með ferskt berjabragð í munninum, var fljót að taka afstöðu. Hún brjálaðist. Hún jós úr sér skömmum yfir mig fyrir helvítis dónaskapinn sem ég sýndi henni, hvað ég væri ömurlegur starfsmaður, hún hefði aldrei lent í öðru eins og hún ætlaði sko að kvarta yfir mér við yfirmenn mína. Ég man enn í dag hvernig hjartað í mér skrapp saman, maginn herptist í hnút og ég seig niður í sætið mitt. E-ð blöskraði manninum framferði konunnar, hann ýtti henni til hliðar, sagði henni að þegja og var fljótur að draga upp veskið. Ég tók svo gott sem tómann pokann til hliðar og kláraði afgreiðsluna. Eins og þetta væri svo ekki nóg ákvað konan að byrja að skammast yfir því af hverju í andskotanum viðskiptavinurinn ætti svo sem sjálfur að bera ábyrgð á því að vigta grænmeti og ávexti, hún væri sko ekki fjandans starfsmaður hjá Hagkaup. Maðurinn dró hana í burtu. Ég sat eftir með samviskubit yfir að hafa ekki rukkað fyrir vínberin, sem voru græn, og í stórum mínus yfir skömmunum.

Á þeim 20 árum sem eru að verða liðin síðan, hef ég fengið að kynnast allskyns útgáfum af þessari konu, dónaskap af hálfu viðskiptavina ýmisa verslana, væntanlega venjulegs fólks eins og þú og ég, fólk sem býr e-r, á maka, foreldra, börn, stundar vinnu eða nám, á sér áhugamál og jafnvel vini. Fólk sem leyfir sér að sleppa lausum taumnum í argasta dónaskap við ókunnugt fólk sem hefur það fyrir starf að vinna í búð. Ég er hætt að síga niður í sætinu en þrátt fyrir áratuga gamla búðabrynju, á maginn það til að herpast í hnút og hjartað að skreppa saman.

Ég segi stundum að það ætti að vera þegnskylda að starfa í verslun. Margir hefðu altjént gott af því að afgreiða sjálfa sig á góðum degi.

6 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þessi sería ætti að vera skyldulesning, frábær úttekt á einmitt svona viðskiptavinum (og reyndar mörgu fleiru) og ætti að kenna dónunum eitthvað!

Íris sagði...

Það er með ólíkindum hvað fólk getur verið dónalegt við afgreiðslufólk. Stundum roðnar maður bara þegar manneskjan á undan manni í röðinni missir sig við kassadömuna, sem engu ræður. Á mínum yngri árum vann ég á skyndibitastað úti á landi, og það var margt sem maður fékk að heyra. Einn missti sig og hélt því fram úttútnaður af bræði að það væru til lög um það hvað maður ætti að fá mikið af kokteilsósu (fannst skammturinn lítill, en dollan var af sömu stærð og dollan á Tomma borgurum). Kjúklingabitarnir voru mikið minni heldur en í Höfuðborginni og margt fleira gæti ég talið upp..........

Frú Sigurbjörg sagði...

Frábær sería Hildigunnur! Við Íris gætum örugglega skrifað nokkrar seríur af dónaskap í ýmsum útgáfum. Dónalegum viðksiptavinum fer því miður hvorki fækkandi né batnandi.

Ameríkufari segir fréttir sagði...

Já! Ég man eftir nokkrum aulum af mínum starfsstúlku árum!

ella sagði...

Ég velti fyrir mér; skyldi þetta vera hlutfallslega algengara á höfuðborgarsvæðinu? Ég var nokkur ár við afgreiðslu í gamalli kaupfélagsbúð við Laxárvirkjun og aldrei fékk ég neitt í þessum dúr, ég hef selt slátur í hátt í tuttugu haust og afar sjaldan fengið annað en kurteisi og hlýju þar, þó rámar mig í að ekki hafi allt gengið smurt á fyrstu árunum alltaf. Hmm. Fólkið hér um slóðir hefur kannski bara þroskast fram úr sumum í þéttbýlinu. Trúlega verður þetta líka ólíklegra þar sem allir þekkja alla. Næstum því.

Frú Sigurbjörg sagði...

Já, það er hugsanlega e-ð til í þessu Ella. Ég vil kenna sjálfbirgingshættinum ég, um mig, frá mér, til mín sem hrjáð hefur landann allt of lengi. Fyrir nú utan allan þennan asa og hraða og að verslanir séu opnar á öllum tímum sólarhrings, alla daga. Ég gæti alveg örugglega skrifað annan pistil bara um afgreiðslutímann... : )