sunnudagur, 6. september 2020

Hindberjarunnar tveir dansa með rokinu, rósir drjúpa regnvotar.

Sólin glennti sig í allann gærdag og frúin fór ekki út fyrir hússins dyr. Nema að svaladyrnar teljist með; eyddi deginum að mestu úti á verönd, stússaðist lítillega í blómum en sat að mestu í garðstól með hatt á höfði (keyptum í Úrúgvæ), sólgeraugu á nefi (keyptum á Siglufirði) og þeyttist í gegnum afar áhugaverða bók eftir japanskann rithöfund.

Í dag hamast veðrið við haustið og frúin var að koma úr göngutúr. Ég kann vel að meta veður, beljandi rokið hressir andann og blaut rigninginn hreinsar hugann. Allavega minn. Sit við eldhúsborðið, endurnærð, með kaffi í bolla og kveikt á kertum. Birta og Bjössi liggja makindaleg á bleikum sófa. Rondó ómar lágstillt í eyru frúar með veðurroða í kinnum og værð í hjarta.

Það er eitthvað við veður sem mér þykir svo heillandi, þessi þverstæða að njóta þess að æða út og leyfa roki og rigningu að belja á sér og njóta þess síðan jafn vel að sitja inni í húsi, komin aftur í náttföt með köld læri og kaldar kinnar, hamagang veðurs fyrir utan, róina hið innra.

Engin ummæli: