mánudagur, 28. maí 2018

Mmmmmmmmaaaaangó Tttttttttttttjötney

Munið þið eftir því þegar þriðja hver uppskrift, ef ekki önnur hver, var með mango chutney? Þriðjungur allra kjúklingauppskrifta, helmingur allra fiskuppskrifta, hver ein og einasta laxuppskrift. Finnst eins og þetta hafi verið í fyrradag en þegar ég íhuga það betur finnst mér líka að ég hafi einmitt búið ein (með Degi) í Skaftahlíð þegar mangó tjötney var uppá sitt besta og fyrst ég er komin þangað þá gæti verið að sirka tugur sé síðan þó það hljómi vissulega jafn fáránlega og að ég hafi rétt í þessu litið út um gluggann og séð bleikan einhyrning fljúga í gegnum skýin með Whitney Houston á bakinu.

Nema ég fann krukku af mangó chutney inní skáp um daginn. Keypti fisk í vinnunni minnug allra þessara fiskuppskrifta á chutney-tímabilinu. Var ekki með neina sérstaka uppskrift í huga, steikti bara það grænmeti sem ég gat dregið fram úr ísskápnum og smellti í ofnast mót ásamt þorskinum. Átti jarðarberjajógúrt á síðasta snúning og ákvað að demba chötneyinu útí hana ásamt karrídufti og shriracha-sósu. Dembdi þessu á fiskinn og grænmetið og sáldraði rifnum osti yfir. Sauð hrísgrjón meðan þetta mallaði í ofninum. Príma máltíð skal ég segja ykkur.

Nema krukkan af mango chutneyinu var svona löng og mjó og ég náði ekki að klára hana svo hún endasendist inní ísskáp. Í kvöld var ég ekki heldur með neina uppskrift og nennti ekki heldur að kaupa neitt í matinn. Meðan sá myndarlegi púlaði í ræktinni rýndi ég í ísskápinn. Skar niður og steikti kartöflur, rauða papriku og skinku, dembdi afgangi af soðnum hrísgrjónum yfir ásamt karrímangókryddi og JÁ, þið giskuðuð á það! Mango chutney!! Dró krukkuna fram og skellti vænum matskeiðum útá pönnuna. Þegar sá myndarlegi kom heim braut ég 4 egg út á herlegheitin og hrærði vel saman.

Úr varð hinn prýðilegasti réttur nema ég er ekki enn búin að klára mangó tjötneyið! Já, þessi krukka ER löng og mjó og mín spurning er; hvað á ég eiginlega að gera við restina? Svör óskast.

Engin ummæli: