mánudagur, 21. ágúst 2017

Menning smenning

Foreldrar, vinir, systkin, börn, ferðafélagar, frænkur, vinnufélagar, frændur og já, yfirmenn líka. 78 nautahamborgarar, 3 grænmetisborgarar og 20 pylsur grillaðar. 101 brauð hitað í ofni. Slatti af iceberg, gúrkum, tómötum og lauk niðurskorið. Haugur af bjór í bala, hvítvín á klaka í handgerðri skál af frúnni. Rauðvín líka, mikil ósköp. Hjartalaga gestabók tekin í gagnið. Inn á heimilið voru bornar rauðvínsflöskur, hvítvínsflöskur, kampavínsflaska, líkjör, vínglös, diskar, bollar, danskur lakkrís, kampavínskerti, blóm í Saharasandi, bækur og falleg kort. Erum alveg bit yfir gjafmildi vina okkar enda átti hvorugt okkar afmæli, buðum bara fólki í menningarnæturgrill, fólki sem okkur langaði til að hitta, gefa að éta og drekka og gera okkur glaðan dag með. Vorum heldur ekki svikin af gleði, meira hvað við Pétur erum lukkuleg með skyldfólk og vini, skil satt að segja bara ekkert í því hvernig allt þetta skemmtilega fólk nennir að hanga með okkur, en gaman var það!

Verð að viðurkenna að við vorum jú örlítið rykug í gær en alveg ofsalega sátt með allt þetta frábæra, glaða fólk sem hjálpaði okkur að gera góða veizlu. Vorum líka ansi lukkuleg að hafa foreldra mína í næturgistingu í gær og geta steikt fleiri hamborgara. Annars var fólki tíðrætt um hve hamborgararnir voru góðir og ég stenst ekki mátið að upplýsa ykkur um að hamborgararnir eru algjört eðal, pressaðir úr príma hakki af Tobba kóngi á laugardagsmorgninum í Melabúðinni. Ef þið vissuð það ekki nú þegar þá er hakkið í Melabúðinni 100% gott og hamborgararnir eftir því. 

Södd og sæl leikur okkur annars forvitni á að vita hverjum var svona í nöp við blómapottana, ég meina, var þetta í alvöru svona villt partý? Engin ummæli: