föstudagur, 16. september 2016

Láslaust blogg

Loksins þegar ég ætlaði að nota fína hjólalásinn minn þá fann ég hann ekki. Teymdi samt fákinn út úr skúrnum og steig pedalana fast á móti vindinum með lopahúfu á hausnum. Elda tók brosandi á móti mér niðrá Haiti og hjólið beið mín láslaust fyrir utan. Sólin skein við mér á heimleiðinni og ég sá svo margt fallegt. Túristana líka, seiseijá. Með ylvolgar, svartar baunir í bakpokanum.

Karlinn er ennþá í vinnunni, puðar við að skemmta Háskólanemum í vísindaferð. Konan opnaði ísskápinn og fann 4 sveppi og örlitla spínatrest í poka. Steikti sveppina í glás af smjöri, skar niður hvítlauksrif og bætti úti ásamt spínatrestinni. Hvítlaukssmjörlyktin var svo dásamleg að ég ákvað að skera niður annað rif og bæta útí. Átti afgang af útrunnu saffranpasta - rennur pasta í alvöru út? - sem ég sauð og blandaði saman við smjörsteikinguna, reif eitthvað af sítrónuberki yfir og dágóðan slatta af parmesan. Að sjálfsögðu. Svakalega gott þó ég segi sjálf frá. 

Næst þegar ég fer á fyllerí ætla ég að kalla það vísindaferð.

Engin ummæli: