fimmtudagur, 25. ágúst 2016

Kom heim með fangið fullt...

af útrúnnu Melabúðargóssi. Karlinn stóð með uppbrettar skyrtuermar við vaskinn, á kafi í uppvaski og hugleiðingum um mat. Sjálf dembdi ég mér í regngalla og dró fákinn út úr skúrnum. Steig pedalana til móts við Höfða, renndi mér meðfram sjónum að Hörpu, hjólaði Lækjargötuna, þeystist upp gömlu Hringbrautina, geystist gegnum Norðurmýrina með ánægjuglott í munnvikum alla leiðina heim. Heima beið mín fullt hús af matarlykt og skemmtilegu fólki.
Síðan ég dró fákinn síðast út úr skúrnum hef ég;

  1. legið á lapþunnri dýnu í hrikalega skemmtilegu hverfi í Berlín sem hugsanlega hefur orsakað stífleika í frúnni (dýnan sumsé, ekki Prenzlauer Berg)
  2. farið í saumavélabúð í útlöndum og hlustað á betri helminginn tala um saumavélastöff á þýzku
  3. heimsótt fangelsi og fangabúðir
  4. farið með pabba minn að borða afríkanskan mat, tyrkneskan mat, asískan og ítalskan
  5. farið á ættarmót og hitt hvorki fleirri né færri en tvær Kötlur
  6. farið í klippingu með mömmu minni, geri aðrir betur
  7. farið á skrall með systurdætrum mínum og farið á barinn á stöðum sem ég vissi ekki að væru til
  8. lesið svakalega bók um konu í Berlín í vegaferð í Pólandi
  9. látið mig dreyma
Tók mig allt of mörg ár að komast að því að mér finnst gaman að hjóla. Gleypti ekki eina einustu flugu í þessari hjólaferð heldur, sem betur fer, en varð kalt á eyrunum. Naut þess samt að stíga pedalana í rigningarúða. Fiktaði meira að segja í gírunum fyrir kallinn. Held það nú.

2 ummæli:

Þórdís sagði...


Aldeilis góð!

Frú Sigurbjörg sagði...

Ég man hreint ekki hvenær ég fékk síðast ummæli hér á blogginu en mikið er það gaman! Takk Þórdís, þú ert aldeilis góð!