miðvikudagur, 2. október 2013

Brosandi

Um helgina er ég tölti löturhægt heim, ánægð eftir sundsprett og full af kyrrð eftir heita pottveru, stoppaði ég á brúnni og tók mynd af himninum sem skartaði fegurð að vanda. Myndin rataði beina leið á Instagram þar sem ég sá svo mynd af litla bróður mínum á hótelherbergi í London, í slopp uppí rúmi, afslappaður og sæll að sötra kampavín með manninum sínum. Munnvikin á mér kipptust upp og ég stóð á göngubrú heima á Íslandi skælbrosandi yfir því hvað bróðir minn var sæll í London. Svona getur nú netið fært mann nær fólki. 

Kringlan er staður sem yfirleitt geymir slatta af fólki. Samt forðast ég hana í lengstu lög og geri mér helst ekki ferð nema eiga ákveðið erindi. Ákveðið erindi átti ég um helgina sem leið svo ég arkaði af stað beint í geislandi bros frænku minnar sem tók á móti mér í innganginum. Aftur kipptust munnvikin á mér upp og ég stóð brosandi út að eyrum í húsi sem ég vil helst ekki vera í. Það er nefnilega fólk sem vekur upp væntumþykjuna í mér.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Munnvik mín kipptust einnig upp er ég las þetta því að.............................. Sibba mín ÞÚ ERT EINSTÖK!
LUV YA
Kv. Mía

Nafnlaus sagði...

Þetta heitir að elska lífið mín kæra með kveðju frá okkur Bróa. (Verð að beina kaffispjótum mínum annað en í Kringluna næst!). Gulla

Íris sagði...

Eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt.

ella sagði...

Það er svo gott þegar fólkinu manns líður vel.