laugardagur, 2. mars 2013

Góð grjón

Ég þekki menn sem finnast hrísgrjón ekki vera matur. Þegar ég segi menn þá meina ég karlmenn, ég þekki enga konu sem fussar og sveiar við hrísgrjónum. Sjálf get ég vel hugsað mér hrísgrjón sem máltíð ein og sér. Oft langar mig þó að gera einhvað meira með grjón, poppa þau upp eins og sagt er


Í vikunni dró ég fram uppskrift sem ég prentaði af femin.is fyrir líklega um áratug síðan, uppskrift að kanilkrydduðum túnfiski sem ég skellti í lög og lét liggja yfir nótt. Fyrir meðlætið skar ég 35 gr af þurrkuðum apríkósum smátt og setti í skál ásamt 40 gr af rúsínum. Hellti sjóðandi vatni yfir og lét standa í 15 mín. Því næst hellt í sigti og geymt


25 gr af smjöri brætt í potti og 150 gr af hrísgrjónum (ósoðnum) blandað vel saman við. 3,5 dl af grænmetissoði bætt út í smám saman (rísottólegt já) og hrært vel í á meðan. Grjónin síðan soðin í korter. Furuhnetur og sólblómafræ (40 gr) ristuð á þurri pönnu


Ávöxtunum, niðurskornum blaðlauk og ristuðu fræunum blandað saman við grjónin sem borin eru fram heit


Hrísgrjónin átum við upp til agna. Hins vegar var ég ekki alveg nógu hrifin af túnfisknum. Hráefnin í kryddlögin voru öll góð og túnfiskurinn var ekki þurr, lítið steiktur á grillpönnu og rauður í miðju eins og talað er um að steiktur túnfiskur eigi að vera. Er helst á því að ég einfaldlega fíli ekki túnfisksteik. Hverju svo sem sætir þá gladdist kötturinn við leifarnar af mínum disk

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Þetta lítur mjög vel út. Ég elska hrísgrjón, sérstaklega steikt. Kærust í bæinn þinn frá okkur Bróa