miðvikudagur, 15. ágúst 2012

Máttur fésins á bloggið

Vegna fjölda áskorana á fésinu kemur hér uppskrift að *heitrauðu paprikusúpunni sem við gæðingarnir gæddum okkur á í gærkveldi


Olía borin á 3 rauðar paprikur og þær látnar malla í ofni í 20 mín. Því næst kældar og reynt að ná sem mestu hýði af þeim undir rennandi köldu vatni, eða þar til þolinmæði ofbýður og skipar þér að hætta þessari helv.vitleysu sem skipti engu máli þar sem allt heila klabbið eigi eftir að enda í matvinnsluvél. Hálfur laukur og 2 hvítlauksgeirar steiktir í olíu og smjöri. Hálfflysjuðum paprikum bætt út í ásamt 3 dl. af vatni, grænmetiskrafti, chillidufti, kummin, kóríander, salti og pipar. Sjóðið í 20 mín. eða þar til betri helmingurinn rífur þig upp úr internetósómanum og minnir þig á að þú ert að elda súpu sem búin er að sjóða. Og sjóða. Fá betri helminginn til að bæta vatni á súpuna, smakka hana til og *blanda saman með töfrasprotanum. Fyrst betri helmingurinn er svo byrjaður í eldhússtarfsemi er best að fá hann til að kippa brauðinu úr ofninum í leiðinni.

Fyrst ég er byrjuð er best að láta *fljótlegu brauðuppskriftina fylgja með líka. Blandið 3,5 dl af hveiti, 3,5 dl af haframjöli, 1 dl hveitiklíð, 1 msk sykur, 4 tsk lyftiduft og 0,5 dl af hörfræjum saman og hrærið saman við 0,5 ltr af súrmjólk. Setjið í ílanga sandkökuformið hennar ömmu og stráið sólblómafræjum yfir. Bakið við 200°C í ca 50 mín.

Borið fram með sýrðum rjóma í súpuna og glás af smjöri á heitt brauðið. Skálin töluvert umrædda er önnur af tveimur sem ég keypti nýverið hjá Retró-Magnúsi á fésinu. Ef minnið bregst mér ekki átti tjéð sandkökuformsamma svona skálar



Meiri bólan þetta facebook.

*tekið lóbeint upp úr M-tímariti um mat og vín, tbl. fjögur 2005.

4 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Gvööð, ég átti svona skálar. Er búin að blogga og gef frat í fésið með kærri frá okkur Bróa.

Ragna sagði...

Kærar þakkir fyrir uppskriftina að súpunni Katla mín og mikið vildi ég að ég væri ekki hætt að borða úr mjöli því svo sannarlega hljómar brauðuppskriftin rosalega vel.
Við virðumst nokkrar sem höfum átt svona skálar og ég átti líka 2 litlar. Gaman að þessu.

Íris sagði...

þetta hljómar girnilega allt saman :)

Frú Sigurbjörg sagði...

Þessar skálar hafa greinilega prýtt mörg heimili, mér þykja þær enn prýði.