mánudagur, 13. ágúst 2012

Lund, sund, snúinn rass í hund

Er ég bjástraði við bannsett sundgleraugun í sundi í gær hóf miðaldra maður með sundhettu að spyrja mig út í sundfimi sína. Þar sem ég hafði ekki mikinn áhuga og hafði heldur ekki tekið eftir því hvernig hann synti, voru svör mín á þann eina veg að ég vissi ekkert um það hvernig hann synti, hvort stíllinn væri í lagi hjá honum, hvort hann hefði synt beint eða almennt borið sig fagmannlega að við sundtökin. Spurningum eins og "æfir þú sund? Ferð þú oft í sund? Æfir þú frjálsar? Æfir þú íþróttir? Ertu í sundfélagi? Ert þú í e-u íþróttafélagi" var öllum svarað með stuttu en snörpu nei-i. Sundhettumaðurinn var þó hvergi banginn og vippaði sér því næst í að tala um ólympíuleikana. Þar með var ófélagslund minni allri lokið og ég hvæsti fremur ókurteislega að eymingjans sundhettuklædda sundgarpinum með óbifandi íþróttaáhugann og félagslyndi á stærð við sundlaug, að ég væri ekki komin í sund til að tala. Spyrnti mér því næst kröftuglega frá bakkanum og synti úr mér bölvaða geðluðruna.

Í heita pottinum sat selsvaxinn heldri maður með skalla og gráar tennur, fyrir utan aðra framtönnina sem var ekki lengur til staðar. Mæsti og blæsti eins og 38°heitt vatnið væri að gera útaf við hann. Yrti ekki á mig. Ef til vill búið að vara hann við hvæsandi kvendinu.

Sá myndarlegi hljóp 10 km hringinn til æfingar fyrir fjórðungs maraþonið og vippaði sér því næst í sultugerð. Sultaði 5 kg af berjum með bros á vör og gleði í hjarta. Engin luðra þar enda ekki að ástæðulausu að betri helmingurinn minn er betri helmingurinn.

Hvað er annars málið með sundgleraugu? Af hverju er bandið alltaf að losna svo ég þarf að bjástra við þau í hvert skipti sem ég fer í sund? Af hverju verð ég alltaf aum við nefið af því að nota sundgleraugu? Af hverju þurfa þau að vera svo þröng að eftir sundsprettinn sit ég yfirleitt með blikkandi rauða hringi kringum augun í heita pottinum? Af hverju ræddi ég þetta vandamál ekki við þann sundhettuklædda? Og bara svo þið vitið það, þá er það eina góða við ólympíuleikana að þeir eru búnir.

3 ummæli:

Hildigunnur sagði...

úff pirrandi gaurinn!

Frú Sigurbjörg sagði...

Æjá, freeekar. En svo fæ ég samviskubit eftir á og finnst ég eigi að vera kurteisari og eigi ekki að láta pirrandi fólk fara í pirrurnar á mér... ces´t la vie og allt það.

Íris sagði...

Ég skellti nú upp úr við lestur þessar yndislegu frásagnar :) get ekki leiðbeint þér varðandi sundgleraugu því miður.