laugardagur, 12. maí 2012

Hnýtti á mig gönguskónna

og brunaði upp í hlíðar Breiðholts. Lagði bílnum á planinu við æskuheimili mitt, labbaði yfir götuna og var komin í Elliðaárdalinn.
Arkaði niður löngu brekkuna sem ég var vön að renna niður á hjólaskautunum frá ömmu.Þræddi krákustígana milli trjánna niður að stíflu. Ætlaði að labba framhjá húsinu þar sem eini strákurinn sem ég hef trúlofast bjó í, en húsið var horfið. Hlustaði á regnið og fuglana tísta á leið minni aftur upp í hverfið.
Labbaði framhjá kirkjunni sem ég fermdist í, blokkinni sem ég bjó í til 6 ára aldurs, búðinni sem ég fór svo oft með ömmu í, engin búð þar lengur. Labbaði framhjá blokkinni sem amma bjó í, framhjá sjoppunni sem núna er take-away staður, fór inn í gamla bakaríið og komst að því að þar er enn hægt að fá skeljar.
Labbaði framhjá blokkinni þar sem ég bjó ein í fyrsta skipti, Ritu sem er enn á sínum stað, að gamla skólanum mínum.
Þræddi gömlu skólaleiðina mína aftur heim, framhjá Leiknisvellinum, sundlauginni, FB, hinni sjoppunni sem enn er sjoppa, bílskúrnum sem Sálin Hans Jóns Míns æfði í til margra ára, grindverkinu sem ég sat á þegar ég kyssti strák í allra fyrsta sinn, skammtímavistuninni sem ég vann í.
Staldraði við hjá húsinu sem ég bjó í í næstum tuttugu ár. Hverfið mitt. Samt ekki.

Eina hugsunin sem ég raunverluega náði utan um var þessi myndarlegi maður sem ég sakna og hlakka til að fá heim á morgun.

3 ummæli:

Íris sagði...

Þetta virðist hafa verið góður göngutúr þrátt fyrir söknuðinn ;)

Frú Sigurbjörg sagði...

Já, hann var það. Merkilegt hvað sum tengsl er bara ekki hægt að slíta, en líka merkilegt hvað maður samt fjarlægist fortíðina fljótt.

Íris sagði...

Satt er það. Hef svarað spurningu þinni á blogginu mínu ;) nenni ekki að skrifa svarið hér líka :)