mánudagur, 24. janúar 2011

Gemsa gemlingur

Í Lundúnaferð minni í þar síðustu viku tapaði ég mér í nærbuxnadeildinni í Primark. Ég áttaði mig ekki á hversu töpuð ég var fyrr en einn morguninn, er ég dró út nærfataskúffuna, og valkvíðinn helltist yfir mig. Það kemur ekki oft fyrir mig að fyllast kvíða yfir að velja. Nema þegar kemur að því að velja gsm síma. Þá nær kvíðinn yfirhöndinni. Þá kemur sér líka sérdeilis vel að eiga mömmu mína fyrir mömmu, sem birtist færandi hendi í búðinni hjá mér í morgun og færði mér nettan, nánast ónotaðan gsm fyrir gemsa eins og mig. Síminn sem hún reddaði mér síðast þegar mig vantaði síma, er nefninlega farinn að gefa sig.

Við nánari íhugun held ég barasta ég hafi aldrei keypt mér gsm. Fyrsti gemsinn sem ég eignaðist keypti Bogga systir mín fyrir mig; hann var doldill hlunkur, en rauður og einfaldur í notkun. Hentaði mjög vel. Næsti gemsi þar á eftir reddaði pabbi mér; hann var líka rauður og einfaldur í notkun, en jafnframt nettasti gsm sem ég hef átt. Hentaði sérdeilis mjög vel. Þar á eftir fylgdi gsm sem þáverandi keypti handa mér; hann var með skemmtilegum takka í miðjunni, sem reyndist líka vera það sem gaf sig í þeim síma. Eftir það hefur svo mamma séð um mín gemsamál.

Það er annars sérdeilis indælt að deila sokka- og nærbuxnaskúffu með manninum sem ég elska.

2 ummæli:

Nafnlaus sagði...

já mín kæra þú átt greinilega góða mömmu, en passaðu þig á að fara ekki í boxerana frá þeim myndarlega úr húsi. Kærust í kotið Guðlaug Hestnes

Frú Sigurbjörg sagði...

Það væri nú gaman ef hann færi í e-m af nærbuxunum mínum úr húsi :D Kærust til baka.