miðvikudagur, 29. október 2008

Kaffi-mál

Fyrir 2 sumrum síðan vann kjaftfor stubbur hér á skrifstofunni hjá mér. Hann fékk mig æði oft til að hlæja mig máttlausa með ótrúlegum talandanum, en það var þessi sami bölvaði talandi sem fékk því áorkað, að gömlu góðu kaffivélinni var skipt út fyrir sýróps-vél. Ég var sú eina sem mótmælti komu vélarinnar af fenginni reynslu frá öðrum vinnustað, og mun aldrei heiðra þetta sýróps-sull með því góða nafni kaffi. Rökin sem allir fóru á sveif með voru að það væri svo gott að hafa aðgengi að heitu “kaffi” á hvaða tíma sólarhrings sem er, bara að ýta á einn takka. Mín rök voru - og eru - sú að ég vil frekar 1 góðann kaffibolla á dag en marga vonda. Fyrst eftir að vélin kom, og öll þægindin sem henni fylgdu, var ég kölluð sérvitringur fyrir að koma með pressukönnuna mína í vinnuna og drekka mitt eigið kaffi yfir daginn. Fljótlega fór þó að þynnast hljóðið í mönnum og einn af öðrum að segja það upphátt, það væri vart hægt að kalla þetta “kaffi”. Nokk reglulega er kaffi-málið til umræðu á kaffi-stofunni. Strákskrattinn (nýlegi rekstrarstjórinn) tók sig því til, lét fjarlægja sýrópið í gær og er búinn að skipta yfir í stærðarinnar uppáhellingarvél með raunverulegu kaffi.

Ég er ekki frá því það hafi verið léttara yfir mönnum í morgun. Nema það sé snjórinn.

3 ummæli:

G. Pétur sagði...

Gott kaffi er gott kaffi er gott kaffi.

Nafnlaus sagði...

Betra er að sleppa kaffi en drekka eitthvert kaffisull. Ég elska Senseo Dark roast.
Kær kveðja,

G. Pétur sagði...
Þessi athugasemd hefur verið fjarlægð af stjórnanda bloggs.